Blómkálsvængir BBQ
Þrátt fyrir að buffaló blómkálsvængirnir séu algengari sjón á matseðlum ýmissa veitingastaða má prófa sig áfram með ýmsar útgáfur af sósum og í rauninni eru allar sósurnar sem algengar eru með kjúklingavængjunum góðar með blómkálsvængjunum. Uppáhalds BBQ sósan og örlítið af hvítlaukssósu gerir þetta sakleysislega grænmeti ómótstæðilegt án þess að rífa of mikið í bragðlaukana.
1/2 haus blómkál
2 egg
150 g möndlumjöl
1 msk maíshveiti eða kartöflumjöl
1/2 tsk laukduft
1/4 tsk hvítlauksduft
1/4 tsk reykt paprika
salt og pipar
BBQ sósa eftir smekk
sneiddur vorlaukur eftir smekk
hvítlauksmajones eða hvítlauksgrillsósa
Byrjið á að skera blómkálið í passlega munnbita.
Takið fram 2 skálar til að vinna með.
Blandið í fyrri skálina möndlumjöli, maíshveiti, laukdufti, hvítlauksdufti, papriku, salti og pipar.
Í seinni skálinni eru eggin slegin saman með gaffli og krydduð aðeins til með salti og pipar.
Byrjið á að forhita air fryer upp í 180°c.
Dýfið hverjum blómkálsbita í eggjablönduna og gætið þess að eggjablandan nái að hjúpa alla yfirborðsfleti á blómkálinu. Dýfið blómkálinu í mjölblönduna og þrýstið mjölinu vel utan um hvern blómkálsbita. Spreyið matarolíu yfir til að hjúpa bitana og bakið í 12-15 mínútur. Snúið bitunum einu sinni á meðan verið er að baka þá til að bitarnir verði fallega gylltir á öllum hliðum.
Þegar blómkálsbitarnir eru bakaðir má setja þá í skál ásamt skvettu af BBQ sósu og hræra aðeins í með sleikju til að hjúpa bitana í sósunni. Berið fram með örlitlu hvítlauksmajonesi til að toppa ásamt ferskum sneiddum vorlauk.