Hamborgarhryggur

Hamborgarhryggur
(1)

1 stk hamborgarhryggur

1/2 flaska hindbejasaft (ég nota mömmu saft)

1 laukur

2 gulrætur

vatn þar til flýtur yfir hrygginn í pottinum

Gljái:

1 msk dijon sinnep

3 msk púðursykur

1 tsk safi úr ananasdósinni

ananashringir

Skerið lauk og gulrót gróft. Setjið hrygginn í stóran pott, grænmetið og hálfa flösku af saftinni. Hitið upp a suðu, lækkið hitann og leyfið hryggnum að sjóða við vægan hita í 60 mínútur.

Veiðið hrygginn upp úr soðinu og setjið á ofngrind með skúffu. Geymið soðið fyrir sósuna.

Hrærið saman í lítilli skál dijon sinnepi, púðursykri og 1 tsk af ananassafa. Penslið á hrygginn og raðið ananassneiðum þar ofaná.

Setjið hrygginn í ofninn og bakið í 15 mínútur við 200°c. Á meðan má útbúa sósuna.

Soðsósa:

1500 ml soð af hamborgarhrygg

2-4 tsk svínakraftur

200-300 ml rauðvín

1/2 askja sveppir, sneiddir og steiktir

2-3 msk hveiti hrist með örlítlu köldu vatni

salt og pipar

örlítið aromat

sósulitur

Setjið 1,5 líter af soðinu í gegnum sigti í smærri pott. Hitið að suðu, bætið við 2 tsk af svínakrafti (ég nota duftið frá Oscar). 200 ml af rauðvíni og hveitihristing. Leyfið sósunni að sjóða í nokkrar mínútur og smakkið til með kryddunum. Þetta er afar mikið smekksatriði og er algengt að þurfi að kalla til aðstoðarkokk til að smakka til sósuna og stilla af kryddin þar til rétta bragðið kemur. Setjið sósulit út í og setjið smjörsteikta sveppi að lokum út í sósuna áður en hún er borin fram.