Heita ljóskan
Ég sá eitt sinn þátt af Rachael Ray þar sem hún bakaði "a hot blonde" sem er hvít ostapizza með chili hunangi. Við á klakanum eigum kannski ekki eins auðvelt með að finna alla þessa áhugaverðu osta sem hún notaði en hér kemur mín útgáfa með því fátæklega úrvali sem fékkst í mjólkurkælinum í Bónus þessa vikuna.
Pizzadeig fyrir stóra pizzu
100 g kotasæla, maukuð
1 egg
örlítið múskat
klípa af steinselju
salt og pipar
30-50 g parmigiano reggiano, rifinn fínt
100 g mozzarella, rifinn
50 g havarti (Hávarður), rifinn
Hunangið:
3 msk hunang
1 msk sriracha sósa
klípa chiliflögur
salt og pipar
Byrjið á að hita ofninn í 250°c. Svo er komið að því að fletja deigið út. Smyrjið steypujárnspönnu með örlítilli olíu. Setjið útflatt deigið í pönnuna.
Blandið saman kotasælu, eggi, parmesan, salti og pipar með töfrasprota eða minihakkara. Setjið steinselju saman við og dreifið blöndunni yfir pizzabotninn. Stráið mozzarella og havarti osti yfir.
Bakið pizzuna í 12-14 mínútur. Á meðan er hægt að hita hunang, sriracha, chili, salt og pipar í litlum potti þar til blandan þykknar lítillega. Tekið af hitanum og borið fram með pizzunni.